Bónusgrísa veiðarinn mikli!

Jæja, ég er víst orðin strand  við tölvuna í kvöld. Var eitthvað að ærslast með litlu dömunni, þegar að mér tókst að gera einhvern fjárann við bilaða hnéð mitt. Þeir sem til mín þekkja vita hvað skeði fyrir rúmu ári, en þrátt fyrir mikla sjúkraþjálfun þá þarf víst meira til.

En nóg um það. Ég er víst orðin eitthvað myndaóð frá því að ég loksins fann hleðslutækið og snúrurnar fyrir mína fögru Canon myndavél. Þeir sem eru svo góðir að nenna að lesa röflið og kjánalætin í mér eiga því von á mörgum myndum, misgóðum og nytsamlegum en ávallt skemmtilegum.

Aftur að viðfangsefninu. Eins og flestir eflaust gera erum við orðin dugleg við að ljúka vikuinnkaupunum á einhverjum degi vikunnar. Eftir að heim var komið með fulla pokana, var úr þeim tekið og hafði kötturinn eitthvað verið að sniglast í kringum þær athafnir.

Loks þegar þeir voru tómir fékk hann frelsi til að gera það sem honum hentaði við þá. Ýmist reyndi hann að hreiðra um sig í þeim eða að veiða fagra grísinn sem á þeim voru. Það gekk nú misvel en ég og mamma náðum afskaplega góðum myndum af leikunum.

045

Greyinu tókst að draga með sér pokann í doldinn tíma á skottinu

048

"Ég ætla sko að ná þessum Bónusgrís"

049

"Thank you...thank you very much"

Það þarf varla að nefna það að grísnum var náð.

 


18 dagar...

Þetta hljóta margir að vera búnir að heyra. Í það minnsta verður þetta það síðasta sem ég mun skrifa á þessa blessuðuð síðu þar til einmitt eftir 18 daga. Þeir sem eru snjallir vita auðvitað um hvað ég er að tala. Auðvitað samræmdu prófin. Margir hafa nú kallað mig geðveika að taka öll 6 prófin, flestir eru sem sagt að sleppa einu eða tveimur. Ég slepp nú þokkalega því ég er búin með enskuna frá því í fyrra. En til að koma sér að efninu að þá mun lítið heyrast frá mér næstu tæpu 3 vikur, því stúlkan mun vera annaðhvort læst inn í herbergi að læra eða hægt er að finna mig á bókasafninu að lesa. Spennandi líf framundan, en auðvitað verður maður nú að ljúka þessu með glæsibrag.

Mesta freistingin er reyndar að hanga bara á netinu á blogginu og feisbúkk en það dugar nú ekki...

Það er bara ekkert annað en að læra, læra, læra.

Minnist ég á að ég þarf að fara að læra???


Dugmikil og pakksödd

Þetta kalla ég dugnað. Tvær færslur á einum degi. Áttaði mig reyndar bara á því áðan að ég gleymdi að segja frá öllum deginum, nefndi bara kjánalæti gærkvöldsins. Svo hreinlega varð ég að henda inn nokkrum myndum sem að litla daman heimtaði að yrðu teknar þegar hún var búin að draga myndavélina mína úr töskunni minni.

Sætar systurTada

Það skal nefnast að stóra systirin er ekkert sérlega vel til höfð.

Dagurinn byrjar á óhefðbundnum skóladegi vegna Pisa-könnunnar. Þeir fáu sem tóku þátt voru svo útúrtroðnir af mat að það hálfa hefði verið helling. Eftir fyrri hlutann voru nefnilega bakkar af Subway bátum. Hópurinn var orðinn assgoti svangur eftir að hafa hangið þarna án matarpásu í of langan tíma (að flestra mati) svo að mikið var hámað af bátunum.

Svo var stúlkan valin í eitthvað úrtak til að taka tölvukönnun. Þeir heppnu fengu pizzu bara svona klukkutíma eftir Subway máltíðinni.

Stór plús við daginn var að þemadagar eru í skólanum vegna árshátíðar á miðvikudaginn. Í dag var semsagt náttfatadagur og ég, Náttfataskrímslið Mikla, (ég elska náttbuxur) lét ekki segja sér það tvisvar og mætti í bestu buxum sem til eru.

Ef ég væri örlítið öðruvísi en ég er, að þá myndi ég ekki hika við það að vera í náttfötunum daginn út og daginn inn, nema þá myndi það kannski draga svoldið úr dekrinu að geta hent sér í kósýfötin um leið og komið er inn í hús.

 

Held að ég sé búin að blogga alveg nóg í dag.

 


Bleiksápa...

Hver hefur ekki allavega einu sinni á ævi sinni heyrt þetta. "Ef þú hagar þér ekki að þá þvæ ég á þér kjaftinn með grænsápu!" Ja eitthvað hef ég nú misskilið þetta miðað við uppátæki mitt í gær.

Ákvað að setja inn þessa endemis kjánasögu með þær vonir að fólk forðist svipaðar aðstæður.

Klukkan var orðin meira en ég þori að viðurkenna fyrir fólki og daman átti náttúrulega löngu að vera farin að sofa. Ég staulaðist víst inn á baðherbergi með það í huga að bursta í mér tennurnar eins og gott og gilt er að gera fyrir svefninn.

Nema hvað að ég var víst orðin þreyttari en ég hélt, því að í staðinn fyrir að setja tannkrem á tannburstann asnaðist ég til að setja sápu á tannburstann.

Eins gott að ég stakk honum ekki bara beint upp í mig, stoppaði í örlitla stund því að tannkremið var svo undarlega fagurbleikt.

Áttaði mig svo á mistökunum og leiðrétti þau með hraði.

Það má læra af þessu að betra er að fara fyrr að sofa!


Leigumyndir

Ný komin heim úr bíóferð sem maður svona hálfpartinn sér eftir því að hafa eytt 900 kalli í. Ekki það að myndin hafi verið hreint út skelfileg, langt í frá var hún bara nokkuð góð.

En kannast ekki flestir við það að skella sér nokkuð skyndilega í bíó með vinahóp, koma síðan út og hugsa að þetta er mynd sem er leigumynd. Þar sem betra er að bíða bara, finna sér mökk af óhollustu til að narta í og horfa á mynd í kósýleg heitum.

Myndir sem maður ætti að fara á í bíó eru svona almennilegar alvöru myndir, þar sem maður sér ekki endalokin þegar 5 mínútur eru búnar af myndinnni. Eitthvað sem maður er ánægður með að hafa séð í svona alvöru bíó fíling.

Nú er stúlkan (höfundur) alveg orðin rugluð og ætlar að gera eitthvað sem þreyttri manneskju sæmir...sofaSleeping


Ákvarðanir

Datt í hug að skrifa hér niður nokkrar línur til að létta á hugsunum mínum. Maður er búin að vera að velta fyrir sér skólamöguleikum fram og tilbaka, svo mikið að maður veit ekki hvaða hugmynd er manns eigin og hverjar koma frá kunningjunum sem eru í svipuðum pælingum.

Minn helsti kostur hefur hingað til verið að fara í MH á málabraut. Gott og blessað. En svo fer maður að velta fyrir sér hvað væri líka gaman að gera. Hvort maður ætti að fara í MK í matreiðslubraut og sjá hvernig maður spjarar sig.

Já sá á kvölina sem á völina.  Er ekki nú dagur málsháttanna. Hvernig verður þegar kemur að degi ákvarðanna?

Hin ávallt ráðvillta

Valgerður.


Súkkulaðiþörfin segir til sín

Sit ég hér við fartölvuna á heimilinu með væna sneið af afmæliskökunni minni frá því um daginn. Fékk víst eitthvað lítið af þeirri fyrr en nú. En nú þegar að páskadagur nálgast segir víst þessi indæla súkkulaðiþörf til sín.

Sérstakt miðað við það að ég er ekki beint mikil súkkulaði manneskja. En þegar þessi tími kemur, sprettur upp þessi gríðarlega löngun í súkkulaði páskaegg. Svo gjörsamlega étur maður á sig gat og getur ekki hugsað sér að bragða á slíku nokkurn tíman aftur....eða svona þar til á næsta áriWink

Maður bara borðar nógu mikið þegar maður hefur afsökun til og skellir sér síðan á æfingaplan til að bæta fyrir syndir sínar.

Datt í hug að nefna það vegna þessa mikla súkkulaði-bloggs, að áhugasamir ættu að kíkja á myndina Chocolat með Juliette Binoche og Johnny Depp ásamt bunka af gæðaleikurum. Skemmtileg mynd með svo fallegu og girnilegu súkkuðlaði að maður fær vatn í munninn.

Nauðsynlegt til að horfa á þessa mynd er að hafa súkkulaði í grendinni.

Nú þegar þessi færsla er að klárast er ég komin með algjörlega nóg af kökunni minn, gæti ekki hugsað mér að borða meir...þangað til á sunnudaginnSmile


Nístingskuldi

Eina sem mér dettur í hug að tjá mig um. Það og ég var að horfa á Wickerman en tökum hlutina í réttri röð.

Þurfti að fara út í dag í þennan svona svakalega kulda. Ekki bætti það upp á að það var vindur. Varð að gera mér ferð í Símann til að fjárfesta í einu stykki hleðslutæki. Og fyrir táningsstúlku sem er bara rétt svo að byrja að keyra að þá er strætó eini ferðakosturinn. En göngurnar sem þurfa að eiga sér stað voru mér svo sannarlega ekki að skapi.

En að skemmtilegri umræðuefnum að þá var ég að klára að horfa á Wickerman með fjölskyldunni. Reyndar skulum við leiðrétta það, ég og pa vorum að horfa á meðan ma var dottandi í sófanum. Kostir og gallar á því að eiga svona þægilega sófaGrin

En aftur að myndinni, þá var hún vissulega mjög góð. En eins og er með flestar myndir eru þær börn síns tíma og hér var engin undantekning. Eins og foreldrarnir höfðu orð á hlutu fyrri áhorfendur að hafa verið mjög þolinmóðir því mikið var um löng skot sem komu litlu til skila og hægum byrjunum á sögunni. Einnig sást talvert af því að þetta var tímabilið þar sem framleiðendur voru að sýna hvað þeir gætu loksins, því ekki var skortur á berstrípuðum kellingum sprangandi um í náttúrunni.

En engu að síður góð mynd.

Nú hef ég frá fáu fleiru að segja nema að bjóða góða nótt.


Breytingar og himnaríki í munnbita

Þá gerðist það í alvöru, ég tók síðuna alla í gegn. Stóð jafnvel við orð mín  um að blogga. Ekki er frá miklu að segja. Ég og Hulda erum búnar að vera heima í dag í algjörri leti.

Litla kellingin er búin að vera í þvílíku sjónvarpsukki í dag að ég held að annað hafi ekki heyrst um. Í þessum rituðu orðum er hún að horfa á Mauratraðkarann eða hvað sem myndin heitir. Á meðan sú stutta hefur legið í glápinu hefur stóra systirin haft það huggulegt með nýja bók. Hægt að sjá í listanum til hliðar.

Vil taka það fram að höfundur fékk besta mat í heimi í gær. Síðbúinn afmælismatur vegna afmælisveislunnar á daginn sjálfan. En í matinn voru nautalundir steiktar bleu, nánar tiltekið, snöggsteiktar á sjóðheitri pönnu í örskammastund á hvorri hlið.

Þannig að kjötið er heitt og stökkt að utan og volgt/kalt að innan. Með þessu er afar lítið meðlæti, við höfum grænar baunir og smjörklípu og salti ef með þarf.

Algjört himnaríki í munnbita.


Afmælisstúlka bloggar!

Jæja, ég ákvað að fara að vera duglegri í að blogga...hahh hversu oft hefur það heyrst frá mér. En í það minnsta fannst mér það skylda að rita hér stutta kveðja (gæti orðið löng) á afmælisdaginn minn.

Ég, sem sé byrjaði daginn á því að vakna snemma miðað við það að ég er í fríi, vaknaði um 10, rífa litlu systir mína upp og draga hana í leikskólann. Litla daman var með einhvern skrekk í gærkveldi sem olli eitthvað trufluðum svefni. En nóg um það.

Það var ekki klukka sem vakti mig í morgun heldur voru það endalausu víbríngarnir frá farsímatækinu mínu, betur þekkt sem besti vinur minn, en það voru kærkomin hljóð frá dauðaþögninni sem hefur borist frá honum, eitthvað lasinn greyið, hélt hann væri að liggja banaleguna. En þegar áhyggjufull móðir hans fór með hann til læknis (í viðgerð hjá yndislega fólkinu í Símanum) var niðurstaðan sú að það var ekki hann sem var sárlasinn heldur bróðir hans, hleðslutækið. Þannig að nú er búið að kalla út dánartíma þess og jarðarförin verður auglýst síðar.

Ég biðst foráts án afláts á þessum undarlegu ræðum mínum en svo ég komi mér aftur að efninu að þá voru það endalaus textaskeyti frá öllum heimshornum sem óskuðu mér til hamingju með afmælið. Maður kemst víst að því að það er drjúgur slatti af fólki sem man eftir manni og þykir víst vænt um mann.

Kannski er hægt að taka eftir því að ég er fremur langorð, helgast líklega af því að ég er að forðast eftir bestu getu að taka til. Það er víst einhver bé***ans afmælisveisla í kvöld. Er víst að fara út að borða með einhverjum slatta af fólki og svo á að vera einhver afslöppun heima hjá mér. Nú er hugarástandið svo hjá mér að mig langar bara að segja fólkinu að fara heim til sín og vera þar. Ég meina þið verðið búin að borða, er það ekki nóg, vanþakklátu......

Ég meina þetta auðvitað ekki, undarlegt skap sem hefur brotist hér út á afmælisdeginum, er alveg himinlifandi yfir þessum yndislegu vinum sem vilja vera með mér og fagna "ellinni".

Ég held að ég verði að fara að taka til, reyndar er ég vel á veg komin, orðið hreint í eldhúsinu, barbídótið komið af gólfinu og eina sem er eftir er að brjóta saman einhver föt og ryksuga.

Fyrirgefið mér þessi undarlegheit, en kannski verð ég bara svona út árið, maður veit aldrei hvað getur skeð á svona afmælisdögum.

Vil taka það fram að nú þegar ég er að drolla að þá hef ég tekið síðuna að einhverju leiti í gegn svo að hugsanlegt mun dugnaðurinn vera meiri í framtíðinni hvað það varðar blogg, endilega vera dugleg að láta vita hvort eitthvað af fáránlegum spekúleringum mínum veiti einhverja skemmtun.

Wow this page is so beeaaauutilful and shiiiinnyyy I'm gonna love it forever and ever and ever...

Eins og ég sagði, undarlegt skap í dag!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband