Þriðjudagur, 27. apríl 2010
Bloggsíðan feiga.
Ég er ansi hrædd um að ég hafi frá litlu að segja.
Þessi blessaða bloggsíða mín, góð sem hún hefur reynst mér virðist liggja á banabeðinu hvað varðar pistla frá síðueiganda.
Bloggin eru síðunni næring og undanfarið ár hef ég svelt hana.
Næring í æð er því miður ekki valkostur því öll mín míkró-blogg fara nú fram á fésskruddunni.
Kannski að ég reyni að fylgjast eitthvað með þeim sem skrifa enn af eldimóð um fréttir líðandi stundar og koma skoðunum sínum á framfæri, með rökum eður ei.
Nei nú er nóg komið, ég ætla að leyfa mubblusíðunni að hvíla sig í bili.
Kannski hún verði einhvern tíman endurvakin ef ég finn fyrir brennandi löngun til að tjá mig en annars kveð ég að sinni og þakka góða samfylgd.
Valgerður Sigurðardóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 1. janúar 2009
Tek á móti nýju ári á hækju!
Mér tókst að gera það aftur...þ.e. að taka hnéð á mér úr lið.
Á alvarlega fáránlegan hátt. Var bara að stíga niður af kolli í vinnunni og þá kom alveg "yndislegt" brakhljóð sem endurómar enn í eyrum mér, og ég lét mig síga niður á gólfið undan sársaukanum.
Hinsvegar er þetta talsvert skárra en seinast þegar að ég gerði þetta fyrir tæpum tveimur árum og maður veltir fyrir sér hvort maður sé komin í æfingu.
En ég mun lifa þetta af, verri hlutir hafa gerst.
Gleðilegt nýtt ár!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 25. desember 2008
Gleðileg jól.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég hef ekki staðið mig í stykkinu í því að blogga. Mikið búið að ganga á. Próf, vinna og svo að lokum jólastússið.
Óska öllum nær og fjær gleðilegra jóla og þakkir fyrir liðið.
Kær kveðja
Valgerður
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 9. desember 2008
Þar kom að því...
Sögu vil ég segja ykkur af lítilli stúlku sem er að taka langstökk í talinu um þessar mundir.
Heilu romsurnar koma út úr stelpunni og það virðist ekkert ætla að stöðva þessa blessuðu munnræpu sem er loksins komin á barnið. Fullmyndaðar setningar, -af hverju- spurningar og ég bara veit ekki hvað.
Held að allir á heimilinu séu í losti hvern dag.
T.d. var hún rétt í þessu að tilkynna pabba að hann væri með hár í eyrunum svo eitthvað sé nefnt.
Frá mér er fátt að frétta, próf í fullum gangi og ég sé fyrir endann á þeim, komandi föstudag.
Þá eru í það minnsta tvö afmæli á dagskrá yfir helgina og jólaball í næstuviku á Nasa.
Bara að ég gæti sparkað í sjálfa mig að fara að lesa.
Kann einhver eðlis- og efnafræði?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 22. nóvember 2008
Nornaráð Kreppunnar
Ég er nú dálítil norn innst inn í mér og hef frætt mig
um margs kyns galdra og ráð í gegnum tíðina.
Þær nornir, sem eiga sér viðeigandi fylgikött (familiar)
geta nýtt sér almennt leiðindaverk hér í krepputíðinni.
Kattakassinn!
Ég veit ekki með aðra en það er hér á heimilum
mjög nauðsynlegt að skipta reglulega um í
umræddum kassa og gott ráð til að búa um hann
á nýjan leik er að setja dagblað í botninn áður en
sandurinn er settur í.
Djarfir gætu viljað vera hnitmiðaðri og því er öllum velkomið að velja sér mynd, hugsanlega prenta hana út frá veraldravefnum en þessa dagana er öruggt að finna einhvern sem manni mislíkar í einhverju af blöðunum.
Ég ábyrgist ekki að eitthvað undravert komi fyrir þann einstakling sem hefur þessi örlög en þetta róar sálartetrið þegar reiðin ætlar að blossa upp, að hugsa til þess að andlitið á þessum kauða verður fyrir mjög bókstaflegu skítkasti að minnsta kosti einu sinni á dag.
Meðfylgjandi er gott ráð fyrir dagblöðin í heild sinni sem virðast ekki ætla að færa okkur neitt annað en leiðindafréttir.
Gerið náttúrunni greiða og farið með þau beint í endurvinnslu.
Ekki bara fyrir blessuðu náttúruna okkar heldur einnig fyrir skemmtilegu tilhugsunina um það að sá sem er í blaðinu í dag verður orðinn að SKEINIPAPPÍR í næstu viku!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 28. október 2008
Listin að hrynja inn í strætó
Þetta er virkilega ekki búinn að vera minn dagur og klukkan er ekki einu sinni orðin 10.
Byrjaði daginn í rólegheitum, tók mér minn tíma í að koma mér á fætur og hafði það bara nokkuð náðugt í að hafa mig til.
Svo skellti ég mér út í kuldann og vá hvað ég og hálka eigum ekki saman, ég silaðist þarna niður brekkurnar á snigilshraða. Þannig að mín missti af strætó.
Lítið mál, tek bara næsta og er svoldið tæp inn í tímann en ég meina, ég næ þessu.
Kalt,kalt, kalt. Svo kemur strætó...
Og mín byrjar ekki á því að ganga inn í strætó. Nei, nei, ég hryn inn í strætó.
Fáránlega mikil bleyta og snjór búinn að safnast hjá innganginum og balance-inn hjá mér alveg út úr kú af því ég er með svo mikið af þungu dóti, þannig að mín bara hreint og beint hrynur inn í strætó.
Þannig að ég hýfði mig upp með marin bein og marið stolt og hlamma mér niður í sætið við hlið MK vinkvenna minna og ber mig eins mannalega og ég get.
Svo er strætó alveg óheyranlega seinn, þurfti að bíða eftir hinum strætó-unum og ég var alveg heilu kortéri of sein í alvarlega tilgangslausan tilraunatíma í efnafræði.
Ekki minn dagur.
Ps. Og nú sit ég beint við hliðina á loftræstiopinu í gólfinu og er að frjósa úr kulda!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 12. október 2008
Ég hef ekki hugmyndaflug til að búa til fyrirsögn
Ég hef ekkert með það að tjá mig um núverandi efnahagsástand.Segi bara eins og er að nú er tíminn til að halda í þá sem manni þykir vænt um.
Fyrsta bloggfærslan mín í langan tíma og ég hef raunar ekkert að segja fyrir utan það að ég skipti um höfundamynd þannig að fólk haldi ekki að ég sé enn með brúnt hár og krullur.
kveðjur frá Valgerði
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 8. september 2008
Busaferðin sem ég mætti í!
Já ég held að mér beri að nefna að það var mjög gaman í busaferðinni sem ég nennti ekki í. Þrátt fyrir það að stúlkan hafi bara sofið tæpa þrjá tíma að þá bætti margt svefnleysið upp.
Þess má geta að ég lenti í skemmtilegustu biðröð sem hægt er að hugsa sér þegar beðið var eftir matnum. Lenti á fullkomnum stað þar sem ekki var hikað við að fara í leiki við hvern sem er og spurt um nafn seinna.
Spjallað var alla nóttina í teppalögðum stiga og þegar fólk er samankomið úr Menntaskólanum við Hamrahlíð vantar ekki skemmtunina.
Þarna voru hinir færustu píanóleikarar og þar sem á staðnum var píanó var aldrei þögn.
Ég er að meina það, allt frá jazztónum og út í klassík og rokk barst til minna eyrna þessa nótt.
Svo voru þarna tvær snótir sem sýndu sirkuslistir sínar því þær tilheyra einmitt einum slíkum. Og fimleikamenn sem fundu hentugan stað til að taka nokkur heljarstökk til fagnaðar áhorfenda.
Ég þakka bara kærlega fyrir mig og ætla að fara að hafa mig til fyrir skólann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 5. september 2008
Heima hjá mér vil ég vera!
Ég á að vera að gera eitthvað annað......eeenn ég nenni því ekki. Þarf að hafa mig til og pakka ofan'í tösku fyrir helvítis óvissuferð sem verið er að fara með skólanum. Örugglega svaka stuð fyrir utan það að ég veit að þarna verður ekkert sofið. Og svo er ég ansi önug með það að fara frá heimilinu mínu (there's no place like home) og yndislega rúminu mínu sem ég er farin að heilsa ansi snemma á kvöldin upp á síðkastið.
Oftar en ekki er ég hin mesta félagsvera og gaman er að vera með fólki...í hófi!!!
Nú vil ég taka mér það bessaleyfi og vera væmin. Það eru fáir staðir sem mér líður eins vel og þegar ég er heima hjá mér og það fólk sem mér finnst best og skemmtilegast að vera með er allt samankomið heima hjá mér!
Já, hægt er að draga þá meistaralegu ályktun að ég nenni ekki að fara og eyða föstudagskvöldi og megninu af laugardegi með fólki sem ég þekki ekki rassgat en ég veit það verður líklega ekki eins skelfilegt og ég hugsa núna.
Jæja, best að setja í fimmta og klára þetta helvíti.
Adios og góða helgi
Ps. Sofið kannski svoldið extra og reynið að senda mér svefninn með hugskeyti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 25. ágúst 2008
Þakkir og veikt kaffi
Með einhverjum óútskýranlegum töfrum náði ég að vakna fáeinar mínútur yfir 6.
Skóli hjá minni og ef maður á að líta svona skítsæmilega út þá þarf maður víst að skella sér í sturtu og gera einhverja bjútý-rútínu. Svo spennandi!!!
Er að spá í að tjúna mig aðeins niður á kaffinu. Var að fá mér svona morgun bolla sem ég geri sterkari en venjulegt fólk og fattaði að mér fannst hann ekkert sterkur lengur. Veit ekki hvort ég eigi að hlægja eða gráta.
Ég hef svossum ekkert spennandi að segja. Afmælið sem var hér síðastliðið laugardagskvöld gekk eins og í sögu. Æðislega gaman og það var alveg lygilegt hversu hratt ég sofnaði rétt eftir miðnætti þegar ekki einu sinni allir gestirnir voru farnir.
Þakka öllum fyrir góðan félagsskap og er farin í sturtu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)