Þriðjudagur, 27. maí 2008
Fordómar ungmenna
Nú vil ég fá að heyra álit frá sem flestum því þetta er hreint og beint eitthvað sem þarf að útskýra nánar fyrir mér.
Ég var í samfélagsfræðiprófi í gær, sem er ekki frásögu færandi fyrir utan það að í lokin var ein ritgerðaspurning. Boðið var upp á valmöguleika til að skrifa um og m.a. var hægt að velja efni sem nefndist Kostir ferðafrelsis.
Mér leist nú betur á það en hina tvo valmöguleikana sem þarf ekki að nefna.
Meginatriði ritunninnar voru að nefna hverjir KOSTIRNIR væru við það að erlendir borgarar gætu komið til Íslands í leit að atvinnu og/eða menntun. Svo var einnig partur af þessu hverjir kostirnir væru við það að Íslendingar gætu farið á erlenda grund til þess að gera slíkt hið sama.
Eftir dágóða stund þegar ég var vel á veg komin með ritunina mína, heyrðist í einum bekkjafélaga mínum: Má ekki nefna kosti og galla?
Nei, kvað kennarinn, hann hafði einmitt skrifað einungis kostir á prófið með ákveðna aðila í huga, varðandi þeirra álit á veru erlendra borgara hérlendis.
Eitthvað voru sumir ósáttir en létu sig víst hafa það að skrifa niður kostina eða þá að velja sér annað efni.
Svo þegar að sem flestir voru búnir að ljúka prófinu brá mér nú heldur betur þegar að ég heyrði á flestum að þeir hefðu helst valið sér eitthvað annað efni til að skrifa um í stað þess að berjast við sjálfan sig um að skrifa niður nákvæmlega, óritskoðað hvað þeim fyndist um þessi málefni.
Jafnvel fólk sem stendur mér næst í vinahópnum játaði að geta ekki séð neina kosti þess að hér væri erlent vinnuafl og námsmenn komnir til landsins. Jafnvel þegar að reynt var að benda á það að flestir væru nú farnir til að leita sér betri tækifæra, kom það greinilega líka illa út. Því þá var bent á að það væri bara vegna þess að efnahagskerfið okkar hrundi og ekki væri lengur ágóðasamt að lifa og starfa hér. Eins og græðgin ein knúi fólk áfram.
Alltaf er eitthvað fundið gegn þeirra málstað.
Svo þegar að mig rámar í seinni hluta verkefnisins á prófinu.
Hverjir eru kostir þess að íslendingar geti farið erlendis til að læra og starfa?
Mín spurning er: Af hverju á að vera svona sjálfsagt fyrir okkur að fara til einhvers útlandsins og fá konunglegar móttökur ef við getum ekki gert það sama í okkar heimalandi.
Ég virkilega átta mig ekki á því af hverju þetta er. Sem dæmi vitna ég í færslu sem ég las í gær hjá Guðríði Haraldsdóttur
,,Úr augnaráði Íslendinganna skein: "Hvað er hún að tala við útlendinga?" Og úr augnaráði Indverjanna: "Hvað er hann að tala við innfædda?" Ef ekki munaði svona 20 árum á okkur, mér í hag, hefði ég kysst hann bless til að sjokkera en það er víst ljótt að fara illa með unga menn svona snemma á morgnana."
Maður er hreint og beint hissa á því að fólk undri sig á því að einhver tali við útlendinga. Það mætti halda að fólk geri ráð fyrir að þessir aðilar komi frá annarri plánetu frekar en öðru landi. Eða þá að hver sá sem svo mikið sem yrði á þá smitist af einhverri banvænni veiru.
Ég átta mig fyllilega á því að þetta á síður en svo við um alla Íslendinga. En það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart þegar maður heyrir eitthvað svona neikvætt sem er einungis byggt á mis trúverðugum fréttum og sögusögnum frekar en persónulegri reynslu.
Svo ég haldi nú áfram að dæla út úr mér steypunni sem hringlar um í kollinum á mér... sá einhver annar þáttinn hans Michaels Palins í gær?
Allavega fyrir þá sem misstu af honum að þá var hann einmitt að heimsækja Pólland. Mjög fróðlegt og nauðsynlegt að sjá borgina Varsjá og heyra af uppbyggingu hennar eftir stríðið, en 85% af borginni lá í rústum þegar að endurbyggingar hófust.
Palin talaði við Breta sem hafði búið í Póllandi í 15 ár. Hann var nú altalandi pólsku og átti Pólska eiginkonu. Hann sagði að móttökurnar sem hann hefði fengið væru svo hlýlegar að þá hálfa hefði verið hellingur. Hann óskaði þess að Bretar og aðrir tækju jafn vel á móti pólverjunum til sinna landa og pólverjarnir hefðu tekið á móti honum.
Gestrisnin hefði verið svo gríðarleg. Hann nefndi sem dæmi að ef að maður væri að fara í heimsókn til einhvers, væri ísskápurinn og allar hirslur tæmdar til að bera á borð fyrir gestinn og svo væri bankað á dyr hjá nágrannanum til að tæma hans hirslur einnig.
Mig minnir að ég hafi heyrt álíka sögur annarstaðar.
Nú er mér runnin reiðin og ég ætla að líta aðeins betur yfir pistilinn til að athuga ef hann er mönnum bjóðandi
Athugasemdir
Ég veit gott ráð!! Leggjum niður allar bátasamgöngur og flugferðir til og frá landinu. Þá fáum við enga ferðamenn og engan mat sem er framleiddur í útlöndum. Kannski búa til svona vegg í kringum strönd Íslands svo engin kemst nema fuglinn fljúgandi. Það verður geðveikt!! Svona Berínarveggur nútímans! Nei nei segi svona!! Alveg rétt hjá þér við getum ekki ætlast til þess að ferðast, vinna og læra um hvippinn og hvappinn án þess að leyfa fólki að koma hingað!
Hulda Katrín (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 17:19
Gaman að kynnast þér......
Góður gestgjafi býr jafnvel að öllum sínum gestum. Og hann tryggir að hann geti verið sá gestgjafi sem hann vill vera, og vera þekktur fyrir.
Og hann veit að í baðstofunni er umræðan mikilvægari en skoðanir......okkar allra. FRIÐUR ( er litblindur )
Haraldur Davíðsson, 28.5.2008 kl. 01:46
Kristín, mín elska, heimurinn snýst ekki bara í kring um rassinn á þér Það voru aðrir sem ég var að spá í! Ég er náttúrulega orðinn svo mikill pró bloggari að ég nefni engin nöfn
Valgerður Sigurðardóttir, 29.5.2008 kl. 20:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.