Laugardagur, 23. ágúst 2008
Kisulúr
Ég hef alla tíð verið mikil kisumanneskja og ávallt verið umkringd hinum ýmsu köttum.
Flestir kattaeigendur ættu að vita það að fátt er jafn róandi og að fá sér stuttan lúr með kisunni sinni eða þá bara að halda á henni í örskamma stund til að njóta sálarró áður en dagurinn tekur við.
En nú þegar ég er vakandi á því er mér finnst óeðlilega snemma, er kisan mín glaðvakandi.
Hann byrjaði á því að bjóða mér góðan daginn þegar ég kom fram og beið eftir mér frammi á gangi þar til ég var tilbúin. Svo hefur hann fylgt mér í hálftíma þar sem ég geng um fram og tilbaka.
En eitt sem ég veit fyrir víst er að það er ekki stutt síðan ró komst yfir húsið. Foreldrarnir voru lengi vakandi yfir matnum sem borinn verður fram í kvöld og ef ég þekki minn kött rétt að þá hefur hann varið á varðbergi um allar þessar einstöku framkvæmdir.
Og nú er ég vöknuð upp fyrir allar aldir og hann semsagt líka.
Það er sjaldan að ég sjái hann sofa verulega föstum svefni og ég veit hann hefur fundið sér ákveðinn tíma á kvöldin þar sem honum finnst að nú sé komið nóg og það sé háttatími.
En þegar mikið er í gangi fæst ekki svona lúxus því eins og flestir vita er ansi auðvelt að vekja kött því eins og hann hefur lifað í gegnum aldirnar er nauðsynlegt fyrir hann að vera alltaf á varðbergi gegn hugsanlegum hættum.
Nú er ég komin út í einhverjar svaka pælingar og kem aftur að upphafspunktinum mínum.
Hvernig í ósköpunum hvílast kettir svo þeir njóti góðs af? Ekki geta þeir fengið góða hvíld ef þeir eru alltaf að líta upp og athuga umhverfið.
Ég læt þetta duga í bili og fer að gera eitthvað gagnlegt fyrst ég hafði nú fyrir því að vakna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.