Minning minnir á sig.

Var að lesa færslu hjá Dísu Dóru og mundi alveg skyndilega eftir atviki sem gerðist fyrir að verða 10 árum.

Dísa Dóra setti semsagt inn vídeóbrot úr Dr. Phil þar sem hann var að ræða við hjón. Maðurinn setti út á holdafar eiginkonu sinnar og kallaði hana öllum illum nöfnum. Svo reyndi kauði að kenna henni um. Sagði að ef hún væri bætri yrði hann betri. Kenndi henni um andlega og stundum líkamlega ofbeldið sem hann kaus að beita hana.

Alveg upp úr þurru rifjaðist upp fyrir mér þessi minning þegar ég var sex ára hnáta, hér um bil ný byrjuð í skóla. Leikfimishúsið var í nokkurra mínútna rölt fjarlægð. Tíminn var búinn.

Þó nokkrir nemendur voru farnir á undan til að ná fótboltavellinum fyrir frímínúturnar. Ætlunin var að ná þeim og vera með. Enn voru þó einhverjir eftir  í búningsklefanum og sú sem átti að fylgja börnunum var að hjálpa þeim sem seinir voru.

Ekkert var semsagt að því að litla stelpuskottið gekk af stað í átt að skólanum. Svo virtist það að minnst kosti. Ekki hefði hana grunað að á leiðinni myndi hún mæta tveimur risavöxnum (að hennar mati) unglingsstrákum. Seinna, árum síðan myndi hún frétta að annar þeirra ætti við einhverja örðuleika að stríða.

Hvað um það að þá gekk fyrrnefndi "risinn" í átt að telpunni. Tók fast um axlir hennar sem aðeins báru léttan leikfimispoka.

Og hristi. Hristi litlu telpuna og öskraði.

Eftir það verður minningin óljós. Einhvernvegin hefur gleymst hvernig telpugreyið var fundið. Hvort hún kom sér upp í skólann sjálf eða ef gangakonan og seinu börnin fundu hana tárvota á leið sinni að skólanum.

Minningin byrjar svo aftur þegar að telpan vaknar af óværum svefni í sófa dægravalar skólans. Búið var að hringja í ungu foreldranna sem stóðu áhyggjufullir með einni fóstrunni sem útskýrði atvikið.

Aftur var það árum seinna að telpan fékk að vita hvað var sagt.

Hún hefði átt að bíða eftir drollurunum og fylgdinni þeirra frekar en að ganga á eftir félögum sínum og taka þátt í fótboltaleik.

Starfsfólk skólans sagði að telpan, litla sex ára telpan, sem varð náföl lengi eftir atvikið í hvert skipti sem hún sá "risann" álengdar í skólanum, hefði átt að vita betur.

Sleppa því að ganga á eftir félögunum því einhver gæti ráðist á hana á minna en 3 mínútna labbi. Alltaf að reikna með því ólíklega.

Litla telpan hefði átt að vita betur og þá hefði ekkert skeð.

Ég tek það fram að nú þegar telpan er orðin eldri, á hún sér fleiri minningar. Sumar erfiðari en þessa um missi og sorg en líka minningar um gleði og mikla hamingju.

Ég á fáar minningar úr þessum skóla og alltaf hryggir það mig þegar þessi stekkur svona sterkt upp. Frá því að ég skipti um skóla fyrir nokkrum árum man ég ekki eftir svipuðum atvikum. Óhætt er að segja að umhverfið sem ég fluttist í er margfalt betra, þar sem ég er umkringd vinum og fólki sem þykir vænt um mig.

Hendurnar mínar eru orðnar ískaldar og farnar að skjálfa. Erfitt orðið að hugsa. Ekki viss hvort maður ætti að birta þessa færslu svo alheimurinn, ókunnugir og kunnugir, vinir og hnýsnir vandamenn fái að vita hvað ég hugsa stundum. Hvers ég minnist.

Í raun ekkert ótrúlega lífsreynsla því margir hafa upplifað verra.

Bara minning. Bæði skýr og óljós. Gæti jafnvel verið uppspuni uppátækjasamrar og ímyndunarveikrar manneskju.

Ekkert slæmt gæti gerst ef fólk les þetta. Það fær bara að vita um undarleg viðbrögð mín við annarri bloggfærslu. Viðbrögð sem ég náði ekki að hrista af mér fyrr en ég skrifaði þetta niður. Samt loðir minningin enn við huga minn.

Minningin um litlu telpuna sem "hefði átt að vita betur"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband