Laugardagur, 19. apríl 2008
Dagur tvö og þrjú. Punktur.
Ég stend við mín orð og held áfram að blogga fyrir Ítalíufarana. Gleymdi víst að blogga í gær þannig að nú verða tveir daga teknir í röð.
Dagurinn í gær var nú bara þokkalegur, reyndar ekki æðislegur ef maður tekur til greina munnkvalir höfundar sem var að koma frá tannlækni.
Helga gisti fimmtudagsnóttina þannig að hún var sú sem ræsti litlu dömuna upp á föstudaginn. Reyndar fékk kötturinn nú fyrir ferðina um nóttina. Hann er nokkuð duglegur við að stökkva yfir barnahliðið sem er fyrir stiganum á nóttunni. Þeir sem til hans þekkja vita að hann er á stærð við Cavalier hund og ekkert léttur eftir því.
Helga fékk allavega alveg nóg af þessari næturleikfimi hans þannig að hann var bara tekinn upp á hnakkadrambinu og honum hent inn í þvottahúsið.
Lítið að gera í skólanum en svo skelltum ég og Hulda Kata á einhverja leikskólahátíð hjá Huldu Ólafíu þar sem þeir voru að taka við grænfánanum. Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá hefði þetta getað verið betra. ef einhver hefði getað gefið greyið ræðuhaldaranum gjallarhorn eða eitthvað að þá hefðu foreldrarnir kannski farið í burt aðeins ánægðari eftir að hafa tekið sér frí til að sjá krakkann sinn syngja og drösla honum svo heim extra snemma. Ekki verður því nú breytt en ég veit að ég hefði verið ansi svekkti yfir þessu tilstandi væri ég í 9-5 vinnu.
Eftir að hafa japlað á einhverju kanínufæði sem að litla daman lýsti yfir að væri hreinasti viðbjóður, var haldið í Kringluna að eta ís til að bæta fyrir óþverrann.
Þórhildur og Hulda Kata komu og matreiddu fyrir okkur hamborgara um kvöldið og maður er stoltur af litlu dömunni sem át 3/4 af matnum miðað við að venjulega er það 1/4 eða 1/8. Krakkinn verður loksins kominn með einhverja fitu á sig þegar foreldrarnir koma til baka.
Þá snúum við okkur að laugardeginum. Hulda Óla var vakin snemma til að hún geti haldið sig við breska tímann sem búið er að koma fyrir á heimilinu. Eitthvað hafði hún fyrir stafni með eldri Huldunni þar til stóra systir dröslaðist á fætur.
Okkur var hent út á ferð til ömmu í hádegismat til að halda henni félagsskap þegar allir eru í útlöndunum. Upphvötaði þar tindáta sem pabbi hafði greinilega átt.
Mikið um leiki þar sem að indíáni var bara "minding his own buisness" í tjaldinu sínu þegar einhver kúrekafjandi koma bara og taldi upp að þremur og skaut hann. Hvar daman hefur lært það er mér hulin ráðgáta.
Eftir að heim var komið var eitthvað sem hefur bitið mig og Helgu því að ég held svei mér þá að við höfum tekið þvottahúsið í gegn. Það gerðist út af þeim grun sem við höfðum um að kattarfjandinn hafi verið svo fojj yfir því að vera lokaður inni að hann hafi migið einhverstaðar í óhreina þvottinn. Lyktin benti í það minnsta til þess. Þannig að búið er að sortera þvottinn sem á að þvo, henda ýmsu drasli, skipta um í kattakassanum, sópa rækilega þar í kring og ætlunin er að klára að þvo sorteruðu hrúgurnar, sópa betur, ryksuga og skúra. Regluleg paradís fyrir kattarfíflið.
Nú sit ég úti á Granda og blogga og held að ekki sé frá meiru að segja.
Kveðjur frá Valgerði
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.